Fögnuður | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Fögnuður

Fyrsta ljóðlína:Sérðu ekki, maður, að sólin skín
bls.147
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Sérðu ekki, maður, að sólin skín
og sumar er enn komið inn til þín
með lífsins fegursta gróður.
Þar sem áður var auðn og ís
er orðin jarðnesk paradís.
Ég er fagnandi guð minn góður.
2.
Ég ganga vil hljóðlega í helgidóm inn
því himneska unað og yndi ég finn
um æðar og hjarta mitt streyma.
Ég er eitthvað svo barnslega bljúg í dag
ég bið fyrir öllum og allra hag
en ástsemdum guðs má ei gleyma.
3.
Því hver var mér dýrri líknarlaug
en lífsins orð þitt í hverri taug
þú kenndi mér öllu að unna.
Og hví væri önd mín kvíðafull
fyrst kærleiksnáð þín er barmafull
með ótæmda orku brunna.
4.
Þú guð ert allt sem ég á og ann –
– og eilífðar þráin sem í mér brann
er geisli frá guðdómnum bjarta.
Þú ert funinn í æðum örþreytts manns.
Þú ert ómur af vörum kærleikans.
Þú ert ljósið í mínu hjarta.