Þjóðvísa | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þjóðvísa

Fyrsta ljóðlína:Þangað sem þú varst ungur
bls.7-8
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Þangað sem þú varst ungur
til þeirrar áttar
horfir löngum þinn hugur
og hefst ekki að.
Enginn til upphafsins hverfur
ekki til smáfættra daga.
Æskudraumur þinn réðist
á annan veg.
2.
Horfinn er hófasláttur
hrynjandi töltsins
og hestar með hvítan úða
heitan úr nösum.
Áin blá eins og auga
alskært er sofin.
Aldrei rennur hún aftur
ístær í gegn.
3.
Hvar er nú haustgul störin
og holtið brúna
eyjar bláar úr unni
og amrandi fé?
Láttu ekki hátt mitt hjarta
hér er við engan að sakast.
Örlög þjóðar þig leiddu
á þennan veg.
4.
Þannig er öllum og einum
ætlað að minnast
alls sem hann ekki hefur
en átti þó.
Kynslóðin kaus að fara
kveðja heim þúsund ára
náði samt ekki nema
í næturstað.