Að Hjálmarsseli | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Að Hjálmarsseli

Fyrsta ljóðlína:Hrjóstur hafði ég gengið
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Náttúruljóð
1.
Hrjóstur hafði ég gengið
Hölkná stranga vaðið
Fossá, Hvítá farið
fundið Hjálmarssel.
Hóf mér tjald að húsi
– hrifinn lækjarniði –
hugði gönguhöltum
hvíldin nytist vel.
2.
Nóttin hafði næstum
numið ríki dagsins
umdi Jökla á eyrum
uppi klettarið
kæfði köldu brosi
kveldglæðurnar hinstu
heiðagæsahópar
hættu að ræðast við.
3.
Fast ég hafði í huga
Hjálmar skáld að finna
vakinn/sofinn verða
viðmælandi hans.
Illt er frá að inna
ágengt varð mér hvergi
fékk í neinu numið
návist skálds né manns.
4.
Morgunn regni og roki
rykkti tjaldi á stögum
Jökla reiðiröstum
ruddist Austurdal.
Ekki beið ég boða
bónda kvaddi óséðan
eftir varð að eiga
okkar vinartal.


Athugagreinar

Að Hjálmarsseli í Austurdal í Skagafjarðarsýslu á Hjálmar Jónsson, Bólu-Hjálmar, að hafa haft í seli, er hann bjó að Nýjabæ í Austurdal 1824-1829.