Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Frændi gamli | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (1291)
Afmæliskvæði  (11)
Ástarljóð  (10)
barnagælur  (1)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (13)
Ferðavísur  (3)
Gamankvæði  (18)
Háðkvæði  (8)
Heilræði  (1)
Hestavísur  (2)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (8)
Húnvetningar  (7)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (3)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (48)
Oddi  (1)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Sálmur  (2)
Skáldsþankar  (44)
Strandir  (2)
Söguljóð  (11)
Söngvamál  (1)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (4)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)
1.
Hann var bróðir móður minnar,
móðurbróðir afa þíns,
hafði fölar hrukkukinnar,
hýrgaðist af dropa víns.
Fátæklegum flíkum klæddur,
fetaði lífsins sporaslóð,
aldar sinnar eðli gæddur,
aldar sinnar vörðu hlóð.
2.
Hann varð gamall, grár og lotinn,
gekk við staf og sagði´ ei hót,
ellihniginn, hæruskotinn,
hafði lifað margt umrót.
Sjónin döpur, fjör á förum,
í fangið lagðist æviraun,
minning hlaðin ótal örum,
ævinnar sem voru laun.
3.
Hann var sleginn heimsku tíðar,
hjátrú brenndur, lagður geir.
Þekkti stundir beiskar, blíðar,
beygður hvatastorm, sem reyr.
Fjórum hafði á fótum gengið,
fetað marga tæpa slóð,
skeinur oft á skrokkinn fengið,
skurfur sleikt og lapið blóð.
4.
Illt mun verða upp að telja
allar þrautir manns á jörð.
Þar er úr mörgu vondu að velja.
Vopnin blika köld og hörð.
Stál og eldur, ís og hungur
eru samt á þroskans leið.
Veikir hníga í hraun og klungur,
hrataðir út úr tímans leið.
5.
Þó að stjarna á himni hrapi,
hljómar ekki lokaraust,
en óskapnaðar út úr gapi
andinn kemst ei hljóðalaust.
Eiturdropar úrgir hníga,
af afli lífsins sindri slær.
Frá Elivog til uppheims stíga
einu skrefi guð ei nær.
6.
Undir grænu grasi jarðar
geymast bein við foldarskaut,
en maðurinn sjálfur, – mestu varðar,
mun þó halda sína braut.
Æskan geymir ættar sinnar
eðli, í hjúp hins dýra líns.
Hann var bróðir móður minnar,
móðurbróðir afa þíns.