Sumarkvöld 1908 | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Sumarkvöld 1908

Fyrsta ljóðlína:Sest í rökkurs silkihjúp
bls.122-123
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Sest í rökkurs silkihjúp
sæll og klökkur dagur.
Er að sökkva í sævardjúp
sólarnökkvi fagur.
2.
Fjöruboga bröttum í
bárur soga, renna.
Öll í loga eru ský,
áll og vogur brenna.
3.
Í logni bátur, létt sem ský,
líður státinn, hraður,
þar er káta æskan í,
ómar hlátur glaður.
4.
Ungamóðir út á vog
æfir jóðin hljóðu.
Værðaróður, vatnasog
verða að ljóði góðu.
5.
Nótt hið góða kyssir kveld,
kemur rjóð á völlinn.
Blárri móðu, bjarma af eld,
bregður hljóð á fjöllin.
6.
Dimmblátt heiðisdjúpið á
drauma – breiðir – tjöldin.
Öllu seiðir svefn á brá.
Í sæng hún leiðir kvöldin.
– – –
7.
Stendur hljóð sem hugsi nótt,
hafs eru fljóð á gangi.
Hvíla jóðin jarðar rótt
í jungfrú-móður fangi.