Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Kveðið við spuna | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (1291)
Afmæliskvæði  (11)
Ástarljóð  (10)
barnagælur  (1)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (13)
Ferðavísur  (3)
Gamankvæði  (18)
Háðkvæði  (8)
Heilræði  (1)
Hestavísur  (2)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (8)
Húnvetningar  (7)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (3)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (48)
Oddi  (1)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Sálmur  (2)
Skáldsþankar  (44)
Strandir  (2)
Söguljóð  (11)
Söngvamál  (1)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (4)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Kveðið við spuna

Fyrsta ljóðlína:Þó mig gigtin þjái grimm
Viðm.ártal:≈ 1875
Flokkur:Daglegt amstur

Skýringar

Í Inngangi að ljóðinu er vitnað í Gullöld Íslendinga eftir Jón Jónsson Aðils:
Kvenfólk vann og eigi síður en karlmenn, og voru dætur og konur höfðingja og heldri manna á söguöldinni oft við þvott, sauma eða mjólkurstörf í seljum, og hirðum vér eigi að tína til sérstök dæmi, þótt auðvelt væri.
Síðan er höfundur kynntur:
Herdís Andrésdóttir (1858-1939) tínir til og kveður um þau fjölmörgu störf sem hún vann um ævina á 19. og 20 öld
1.
Þó mig gigtin þjái grimm
og þunnan beri eg lokkinn,
séð hafi árin sjötíu og fimm,
sit ég enn við rokkinn.
2.
Þið, sem eruð ung og frá
og engu viljið sinna,
getið ekki giskað á,
hvað gaman er að vinna.
3.
Ungu fólki er svo tamt
úti á götu að vera,
hollara ég hygg því samt
heima meira að gera.
4.
Svo eg enga særi hér,
segi eg ekki meira
en langi ykkur að læra af mér,
leggið þá við eyra.
5.
Ef hafið tíma að hlusta á
og hættið öðru að sinna,
eg skal segja ykkur frá,
hvað ung eg lærði að vinna.
6.
Hreinan ykkur sannleik sel
svo á þessu stendur,
allt það, sem að upp eg tel,
unnu mínar hendur.
7.
Löngum hef að lömbum gáð
leitað, týnt og fundið,
rétt í höföld hvítan þráð
hespað, spólað, undið.
8.
Eg hef frammi í klettakór
kindur sótt og rekið,
mjólkað kýr og mokað flór,
moð úr básum tekið.
9.
Ullina hef eg tíðum tætt,
út togi glófa unnið,
svo hef eg líka sokka bætt,
saumað, prjónað, spunnið.
10.
Stúrin hef eg starað í glóð,
steikt af þorski roðið,
bæði vélar við og hlóð
verkað mat og soðið.
11.
Til að hefta hungursnauð
hef eg þorskhaus rifið,
strokkað rjóma, bakað brauð,
búr og eldhús þrifið.
12.
Lúið hef eg bakið beygt,
bundið stundum heyið,
malað kornið, kjötið steikt,
keflað lín og þvegið.
13.
Eg hef meðan fullt var fjör
fé á vorin rúið,
kerti steypt úr kindamör,
kveik úr fífu snúið.
14.
Flattan hef eg fiskinn hert,
fugla reytti lengi,
skó úr sauðaskinni gert,
skafið elta þvengi.
15.
Slegið hef eg grasið grænt,
gróin varið túnin,
æðarkollur eggjum rænt,
af þeim hreinsað dúninn.
16.
Löngum skeytti ljá við orf,
laglaus hef eg sungið,
á bakinu stundum borið torf
blauta garða stungið.
17.
Margt hef eg á minnið lagt
er mætti á vegi förnum,
stundum af því sögur sagt
sveinum, meyjum, börnum.
18.
Vetur, sumar, vor og haust
varð eg öðrum þjóna,
sagnakverið lét ei laust,
las við rokk og prjóna.
19.
Tróð í meis við töðustál,
tíðum steikti rjúpu,
skolaði kofu, skarfakál
skar í graut og súpu.
20.
Skepnum gefið hef eg háf,
hann í lengjur skorið,
mokað tað í mykjukláf,
mat á engjar borið.
21.
Stundum svöngum bita bauð,
breytti smjöri í sköku,
fjallagrasagraut eg sauð
gerði sölvaköku.
22.
Tínt hef ber og títt í vind
tölt um móabörðin,
hleypt í skyr og hellt á grind,
hirt og klofið svörðinn.
23.
Eg hef kaffibaunir brennt,
breitt og rakað heyið,
fyrir spröku færi rennt,
fisk að borði dregið.
24.
Kunni eg mosa klettum frá
kljúfa í heimalöndum,
svo hef eg stundum sjónum á
seli greitt úr böndum.
25.
Hnýtt hef net og fest að flá,
fróðum mönnum unnað,
völu látið veðri spá,
vers og bænir kunnað.
26.
Fáki hef beitt um freðna jörð
og frónið blómum gróið,
og út um bláan Breiðafjörð
bát og skipi róið.
27.
Heflað segl eg hef við rá
hert á reiðaböndum,
austurtrogi tekið á,
tveimur ausið höndum.
28.
Þó að stundum þætti neyð
þetta við að stríða,
úti á kaldri lagarleið
var lært að vinna og hlýða.
29.
Þó gæfist mér ei gull í mund
og grátt mig léki þörfin,
eg hef marga yndisstund
átt við hversdagsstörfin.
30.
Þá eru kveðin þessi ljóð,
þar við skal nú lenda.
Verið þið blessuð, börnin góð,
bragurinn er á enda.


Athugagreinar

Ljóðmæli eftir Ólínu og Herdísi Andrésdætur. Fimmta útgáfa, Rvk 1982, bls. 303-308. (Áður birt í Hlín 41. árg. 1959, bls. 155-156)