Bjart er yfir hugarheimi | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Bjart er yfir hugarheimi

Fyrsta ljóðlína:Bjart er yfir hugarheimi
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1990
Flokkur:Söngvamál
1.
Bjart er yfir hugarheimi
hefjum okkar gleðilag
eins og birta og ylur streymi
inn að hjarta sérhvern dag.
Kveðum burtu sút og sorgir
sendum heiftareld í bann
svo að drauma- bjartar -borgir
bjóðist þeim er lífi ann.
2.
Fögnum því sem fegrar lífið
finnum sannan kærleiksyl.
Syngjum burtu kvöl og kífið
kætumst meðan stund er til
Látum gleðigeisla bjarta
gleðja þann sem mæddur er.
Sækum fram með söng í hjarta
söngur gleðimerkin ber.
3.
Söngsins töfra allar eigum
eld sem gjarnan vermir sál.
Bjarta tóna meta megum
meðan röddin enn er þjál
Allt skal víkja andans mistur
æfum saman léttan brag.
Við sem erum söngvasystur
syngjum ykkur gleðilag.









Athugagreinar

Jói í Stapa orti ljóðið við lag Beethovens: An die Freude eða Óðurinn til gleðinnar. Jói leggur ljóðið í munn kvennakvartett er söng lagið á skemmtifundi kvenfélags Hrunamannahrepps 1991. Í kvartettinum voru Auðsholtskonurnar Þrúða og Ásdís, Fanney í Syðra-Langholti og Harpa Ólafsdóttir á Flúðum, allar félagar í kór Hruna- og Hrepphólakirkna. Söngstjóri var Ingi Heiðmar Jónsson