Gestur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Gestur

Fyrsta ljóðlína:Spurðu mig ekki, hvaðan ég komi
bls.14
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1950
Flokkur:Skáldsþankar
1.
Spurðu mig ekki, hvaðan ég komi
og hvers vegna ég sé einn.
- Sumum fylgja svipir og vofur
þó sjái þær ekki neinn.
2.
Spurðu mig ekki um heimilishagi
og heilög ættarbönd.
- Sumir eru friðlausir fæddir
og flýja sín óskalönd.
3.
Spurðu mig hvorki um ástir né eiða
né æskunnar fagra vor.
- Sumir hafa þau forlög fengið
að flýja sín eigin spor.
4.
Spurðu mig hvorki um leit mína og löngun
né loforðin sem ég gaf.
- Sumir verðskulda ekkert annað
en útlegð og förustaf.
5.
Spurðu mig hvorki um sár mín og sviða
né svikna æskuvon.
- Sumir óska, að engin móðir
ætti þá fyrir son.
6.
Spurðu mig ekki um hulda heima
né himnesk máttarvöld.
- Sumir gleðjast með glöðum í dag
en gráta einir í kvöld.
7.
Spurðu mig ekki um bliknuðu blöðin
sem brotna af lífsins eik.
- Við skiljum lítið og skynjum fátt
og skrifum í vatn og reyk.