Vinnumaðurinn í Odda | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vinnumaðurinn í Odda

Fyrsta ljóðlína:Er Sæmundur kom úr Svartaskóla
bls.16
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Oddi
Er Sæmundur kom úr Svartaskóla
sá hann í gegnum fjöll og hóla.
og glettist við gýgi og tröll.
Deildu tveir, gat hann sagt hið sanna,
sá inn í hugskot allra manna
og vissi ósköpin öll.

Jafnvel Kölski sá hái herra
heyrði ýmislegt til ins verra
er Sæmundur hafði sagt
þóttist eiga honum grátt að gjalda
en gáfur og kapp og fíkn til valda
var báðum til lista lagt.

Kölski var bæði kænn og slyngur
en klerkurinn lærður Íslendingur
og vígður sem vera ber
og tókst í fyrstu með hægð að hamla
hrekkjabrögðunum í þeim gamla
og lést vera að leika sér.

Þannig gat klerkur kölska tamið
komið sér undan og við hann samið
um atriði mörg og merk
og loks varð kölski kátur og glaður
og klerksins lagnasti vinnumaður
við alls konar útiverk.

Ef kölski var allt of kampagleiður
lést kennimaðurinn verða reiður
og launaði lambið grátt
rak hann stundum á gat í grísku
golfrönsku og jafnvel djöflaþýsku
og mæddi á margan hátt.

Ynnist þeim báðum til þess tími
töluðu þeir í latnesku rími
á kvöldin og kváðust á.
Sá gamli var alltaf kveðinn í kútinn
því klerkur hjó á Gordíonshnútinn
sem kölski á braginn brá.

Alltaf var einhver bannsett brella
búin út til að þjá og hrella
hinn vonglaða vinnumann.
Það var ekkert að slá handa ótal gripum
en aka vatninu heim í hripum
var grikkur sem glapti hann.

En kölski var hrifinn af klerksins snilli
og krafðist launanna þess á milli
og hafði þá stundum hátt.
Klerkurinn sór og sárt við lagði
að sá fengi launin á augabragði
er sýnt gæti meiri mátt.

Því tók kölski með hálfum huga
en hafði þó vilja til að duga
og hirða sitt hafurtask
fjölga sálum í sínu ríki
og settist einn morgun í flugulíki
á guðsmannsins grautarask.

En einn var sá klerksins æskusiður
að athuga hverju hann renndi niður
og hægt að fæðunni fór.
Flugu tók hann úr fyrsta spæni
faldi innan í þunnu skæni
og gekk út í kirkjukór.

Klukkum var hringt, en kölski þagði
er klerkur hann á altarið lagði
lítið en logabjart
og meðan að stóð á messutíma
mátti sá gamli þarna híma
og það var þó helvíti hart.

Eftir það var hann eins og gengur
með undirdánugar vífillengjur
og urg við sinn yfirmann
en vitnaði aldrei í verkalaunin
vissi, að mörg er búmannsraunin
og kauplaust hjá klerki vann.

Þó honum fyrir sjónum syrti
sýndi hann oft, að hann mikilsvirti
húsbóndans hugarþel.
Samt var hann tregur að sækja messu
en sagði fólkinu upp frá þessu
að Sæmundi segðist vel.

En það þótti kölska verstu verkin
að veiða menn fyrir Oddaklerkinn
og brýna hans breiðu spjót.
Er klerkur fólki til synda sagði
sýndu margir á augabragði
iðrun og yfirbót.

Aum voru kölska innanmeinin
og ef hann hugsaði um skólasveininn
rann honum kapp í kinn.
Látum hann sjá gegnum hæðir og hóla -
en hitt lærir enginn í Svartaskóla
að knésetja kennara sinn.