Úr ljóðabréfi | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Úr ljóðabréfi

Fyrsta ljóðlína:Ekki kvarta eða margt um tala
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1900
1.
Ekki kvarta eða margt um tala
mínu hjarta of þungt er,
eymdin hart að dyrum ber.
2.
Áfram líður ævitíðin stranga,
enda lífsins líður að,
lukkan sendist mér við það.
3.
Þakkir vanda vil ég bandaeyju,
allt það góða, er þú hér
auðartróða, sýndir mér.
4.
Happadagur harla fagur skíni
alla þína ævistund,
unz þú tekur hinzta blund.
5.
Þú skalt bjóða þinni móður tryggu
allt það góða, er þú mátt
auðartróðu veita dátt.
6.
Ykkur báðar, eikur þráðu, fögru
fel ég hæða hæstum smið
hann mún ætíð veita lið.
7.
Í Guðs friði ætíð sértu, eyjan hringa
búin dyggð og blíðum sóma
bragnar margir þær um róma.


Athugagreinar

Um Ingveldi ömmu sína sagði Þórunn Elfa Magnúsdóttir rithöfundur: "Svo hefur mér verið sagt, að heimilið á Horni og eins Skeljabrekku hafi fram eftir árum verið glaðvært, fólkið frjálslegt og haft mikið yndi af frásögnum, kveðskap og söng. Amma var mjög bókhneigð, stálminnug á það sem hún las og heyrði, jafnt á ljóð sem laust mál, og sagði vel frá. Hagmælt var hún, en flíkaði lítt. Vísum hennar var ekki haldið til haga, enda heimilisfólkinu ekki ætíð ljóst, hvað var eftir hana sjálfa og hvað eftir aðra af því, sem hún mælti af munni fram. Veit ég ekki til að neitt hafi geymzt eftir hana utan eitt ljóðabréf, til unglingsstúlku, sem gladdist mikið yfir þessu bréfi og lét seinna færa það inn í póesíbók, sem flestar ungar stúlkur eignuðust í vingjöf á þeim tíma."