Dalurinn minn | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Dalurinn minn

Fyrsta ljóðlína:Svipmikill ertu í fannanna faldinn
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Svipmikill ertu í fannanna faldinn
færður, er blæs um þig norðlægi kaldinn.
Veðurgnýr heyrist í bláköldum björgum.
Bylurinn kemur sem vofa
og vill engu um værð neina lofa.

2.
Eins þegar heiðir um himinsins hring
í hjarninu marrar allt um kring
en norðljósin brunandi braga.
Stjörnurnar tindra og lýsa þeim leið
er leggja út á hjarnfanna öræfin breið.

3.
Hlákubitra um bogann dregst
blíða frá suðri að þér leggst
og lóurnar kvakandi koma.
Loftið hlýnar og leysist snjór
á lífinu verður breyting stór.

4.
Þú klæðist í skrúðgrænan kyrtil kær
hvað meira unaðar bóndanum fær
en sjá litlu blómin þín blómgast.
Allt lifnar og fjörgast við ljóma af sól
sem lífgar allt fagurt er vorið oss ól.

5.
Allt verður fullþroskað, fagurt og nýtt
ég finn það í hlíðum margt vorkveldið blítt
hvað allt er nú yndislegt, fagurt.
En senn kemur haustið, allt fölnar á fold
frækornin vöxnu grafast í mold
allt hjarn hylur hrímkalt og magurt.