Afmælisdagur | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Afmælisdagur

Fyrsta ljóðlína:Sama útlit, basl og bölvaður vandi
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1979
Flokkur:Afmæliskvæði

Skýringar

Haraldur yrkir um eigin afmælisdag er hann verður 73 ára gamall.
Sama útlit, basl og bölvaður vandi,
bókstaflega ekki neitt sem gengur í haginn.
Norðaustan svelja, súld og rigningarfjandi
á sjötugasta og þriðja afmælisdaginn.

Lægðirnar koma með útglenntum illviðrahrömmum
og yfir norðaustur Grænlandi staðsett er hæðin.
Í smásátum kargult og hrakið er hey úti í Hvömmum
og halloka óðfluga kostirnir fara og gæðin.

Þú Drottinn, er situr í salakynnunum glæstu,
ég svekktur má þreyja örþreyttur vasast í ströngu.
Frá útsýnisturni þínum í hæðunum hæstu
þú hefðir nú getað séð þetta fyrir löngu.

Nú koma þarf til þinn líknar og lækningakraftur
og láttu nú sjá að í þér sé dálítill töggur.
Ég skal aldrei biðja þig bónar aftur
ef bregstu mér núna, - mundu það gamli skröggur.