Minning um Jóa leikara | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Minning um Jóa leikara

Fyrsta ljóðlína:Síðasta för að heiman hafin.
bls.25.október 1977
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1977

Skýringar

Til minningar um Jóhannes Jóhannesson, Jóa leikara eins og hann var alltaf kallaður.
Lesið upp við kistu hans, er hann var jarðsunginn.
Síðasta för að heiman hafin.
Hinstu kveðju lokið er.
Undan bleika banaljánum
bjargað enginn getur sér.
Framaf hálum feigðarskörum
fyrr eða síðar hnígur hver.

Löng var orðin lífsins gata
lágum vöggustokki frá.
Vandi oft á vegferðinni
vá og hættum sneiða hjá.
Þolraun sár í leiðarlokin
langan þrautavef að kljá.

Nú er öllum nauðum lokið
nætur langar, dægrin stríð.
Aftur rennur hrein og höfug
heilsulindin tær og þýð.
Lausn er fengin, ljúf upp runnin
langþráð bata- og hvíldartíð.

Næga fram til efri ára
átti seiglu, fjör og þrótt.
Var með stolti og styrkum vilja
starfsins önn af kappi sótt.
Margoft sýndi í mæli ríkum
manndómsþrek og kostagnótt.

Vel að hverju verki stóð hann,
vinnudrjúgur með afbrigðum.
Heyskapar við annir allar
afköstin með fágætum.
Enginn fljótar bjó til bagga,
- bindingsmaður með ágætum.

Einn var þó að allra dómi
eðliskostur bestur hans:
kátínunnar kviku elda
kveikti í brjóstum vífs og manns
góðu heilli er gæddi lífi
gamanvísur, leik og dans.

Þýðum huga þúsundfalda
þökk og lof er skylt að tjá
þeim sem öðrum gleðigullið
gefur báðar hendur á,
ljósi og yl á lífið bregður,
létta gerir stúrna brá.

Hefur nú aftur heill og glaður
himinsálfu bjarta gist.
Hlotið þar um eilífð alla
yndislega og góða vist.
Sunnan við bæ í sólskininu
sungið getur af hjartans list.

Meðan haustkvöld heið og fögur
hafa í faðmi vík og fjörð,
meðan vorið skarti skrýðir
Skíðadalsins frjóu jörð:
hreinskilnin og heiðarleikinn
halda um þína minning vörð.