Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Myndatakan | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Myndatakan

Fyrsta ljóðlína:Við kartöflu upptöku fékk ég svo ferlega í bakið
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Daglegt amstur
Við kartöfluupptöku fékk ég svo ferlega í bakið,
fjandans þrautir, mig verkjaði í allan skrokkinn.
Ég lá eins og skata og varð til að væta ekki lakið
í vandræðum mínum að láta rétta mér koppinn.

Margur þótt bakveikur stöðugt á eymd sinni ali
og oftlega þyki varla setjandi á vetur,
þá át ég samt hvers konar belgi í tugatali,
töflur og dropa en leið ekki vitund betur.

Vonir um bata fljótlega urðu að engu
með illri líðan bæði í svefni og vöku.
Og læknirinn sagði: Þessi djöfull ei gengur lengur,
drífðu þig bara sjálfur í myndatöku.

Þrátt fyrir allskonar pínu og auma líðan,
óbeit á hvers konar vosbúð, hristing og skaki,
á Volvónum gamla í bæinn ég silaðist síðan,
við sjúkrahúsdyrnar rétti úr stirnuðu baki.

Hvítklæddur engill þá birtist með bros í augum
og byrjaði tafarlaust aumustu bletti að kanna.
Ég beið þarna í ofvæni stjarfur og titrandi á taugum
en tókst þó að halda uppi rósóttri stuttbrók frá Danna.

Með ljúfum tökum hún lagði mig upp á bekkinn.
Ég lá þarna á grúfu og fannst mig vera að dreyma.
Ég reyndi samt ákaft að losna við skjálfta og skrekkinn
og skammaðist mín, - vildi að ég væri heima.

Þessi bjarthærða elska tók af mér margar myndir,
mjúklega velti og snéri í sínu fangi.
Í huga mér upplifði ýmsar holdlegar syndir,
en hugsaði að lokum um konuna er beið fram á gangi.

Myndatakan hún leið eins og ljúfur draumur,
liprar hendur þreifuðu á baki og maga.
Ég fann ekki lengur hvað ég var andskoti aumur,
fór allur að lifna, - en það er nú önnur saga.

Sælustundir þær taka alltaf enda,
alvöru lífsins þurfa víst fæstir að spara.
Það reyndi á kjarkinn, sjá draumanna borg sína brennda,
ég barðist við grátinn er hún sagði að ég mætti fara.

Oft lít ég til baka, sé atburðinn aftur fyrir,
aldrei við meðhöndlun slíka hef verið riðinn.
En mjúksár ennþá minningin fögur lifir
um meyjuna góðu er mjúklega strauk á mér kviðinn.