Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Til Vigdísar Finnbogadóttur | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Til Vigdísar Finnbogadóttur

Fyrsta ljóðlína:Nú er sumar og sólmánuður
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:14. júlí 1981

Skýringar

Flutt frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands í tilefni af komu hennar til Dalvíkur 14. júlí 1981.
Nú er sumar
og sólmánuður.
Nú er bjart
yfir norðurslóðum.
Vaxa að völdum
um völl og haga
lífsgrös
og gróður jarðar.

Vertu velkomin
til vorra byggða
forseti Fróns
framaríkur.
Glöð við fögnum
gesti tignum.
Kæra þökk
fyrir komu þína.

Til brautargengis
að Bessastöðum
vakti virðingu
þinn vopnaburður.
Sýndir einurð
og óttaleysi,
sóknarþrá
og sigurvilja.

Innsýn örugga
og óskeikula
áttu í lífssögu
lands og þjóðar.
Drakkstu drjúgum
dýrar veigar
af móðurmáls
Mímisbrunni.

Þjóðin lengi
þinna njóti
andans afla
og eðliskosta.
Vitna orðræður
allar þínar
um hyggjuvit
og hjartagöfgi.

Veit ég að áttu
eftir að bera
vel og lengi
í verki og orði
orðstír Íslands
íturtigin
vítt og breytt
um veröld alla.

Fylgi fararheill
ferðum þínum,
veri vilhollir
veðurguðir.
Hlýir heiðvindar
og hafræna
létt og blítt
um lokka strjúki.

Óskum við öll
alls hins besta
þér og þínum
þjóðhöfðingi.
Styðji þig og styrki
í störfum öllum
gæfa, guð
og góðar dísir.