Svínárnesvísur | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Svínárnesvísur

Fyrsta ljóðlína:Djöfull var nú drengir gott að detta í´ða
Viðm.ártal:≈ 1960–1985
Djöfull var nú drengir gott að detta í'ða,
mega frjáls um fjöllin ríða
og fullir o'ní pokann skríða.

Gríðarlega gáskablandin gerðist reiðin,
fram með Sandá létt var leiðin,
því lostafull og blaut var heiðin.

Gaman var að gista hér og glösum klingja,
sálarskarnið ögn að yngja,
einkanlega þó að syngja.

Mikið lét nú lífið okkur litlu kvíða,
meðan kvöldsins kyrrð og blíða
klappaði á vanga Rauðárhlíða.

Forlög góð mig fluttu hingað, fylliraftinn,
aðeins til að opna kjaftinn
og endurnýja sálarkraftinn.

Hjartað fullt af fjallsins yndi finn ég tifa
Það er sem ég segi og skrifa
Svona dag er gott að lifa.

Það er eins og inni í hausnum ennþá kveði;
ekki man ég allt sem skeði,
en eitt er víst að hér var gleði.


Athugagreinar

Lag: Sólskríkjan