Vorljóð | Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (34)
Bæjavísur  (1)
Gamankvæði  (3)
Tíðavísur  (1)

Vorljóð

Fyrsta ljóðlína:Eflir þor og yngir líf,
Viðm.ártal:≈ 1885–1927
Flokkur:Náttúruljóð
Eflir þor og yngir líf,
eyðir sporum fanna
guðum borin grennir kíf,
gyðjan vordaganna.

Heims suðrænu sölum frá,
sveif með blænum hlýja.
Möttli vænum er hún á,
íðilgræna og nýja.

Sólarganginn hækkar hún,
hauðri angan gefur,
rjóð á vanga björt á brún,
blóm að fangi vefur.

Vökvar sverði vörmum skúr,
vetrar græðir sárin,
heljar læðing leysast úr,
liljan bæði og smárinn.

Foldin glituð geislahjúp
glóir af litum fríðum.
Myrkblátt lita móðu djúp,
mitt í situr hlíðum.

Hlíðum í með fjöri foss,
fiðlu drýgir hljóminn.
Tíðin hlýja kærleikskoss
kyssir nýju blómin.