Í héraði hjartans | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Í héraði hjartans

Fyrsta ljóðlína:Með húnvetnskum augum ég horfi á lífið
bls.2001 bls. 31
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Með húnvetnskum augum ég horfi á lífið
og hlæ þegar ástæða er til.
Í héraðsins anda er heilbrigður kjarni
með hugsjóna gefandi skil.
Og hvarvetna þar get ég fundið það flæði
sem framkallar birtu og yl.
2.
Með húnvetnskum eyrum ég hlusta á landið
og hugsýnir sterkar þá fæ.
Hver lækur þar talar með rennandi rómi
í rímfögrum kveðskaparblæ.
Ég heyri það mál eins og heilaga söngva
á heiðum og úti við sæ.
3.
Með húnvetnsku nefi ég náttúruilminn
af næmleika inn í mig dreg.
Við angan úr jörðu í héraði hjartans
ég horfi um dásemdarveg.
Og gott er að una í algleymi kyrrðar,
þá alsælu gjörþekki ég.
4.
Með húnvetnskum munni ég hérað mitt lofa
af hjarta og fagnandi sál.
Það á sínar fjölmörgu rismiklu rúnir
sem rista í sögunnar stál.
Eg nálgast þær jafnan með auðmjúkum anda
þá opnast mér best þeirra mál.


Athugagreinar

https://timarit.is/page/6359861?iabr=on#page/n31/mode/2up/search/h%C3%BAnavaka