Ljóðabréf til Natans Ketilssonar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Ljóðabréf til Natans Ketilssonar

Fyrsta ljóðlína:Fátt er nú í fréttunum
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Fátt er nú í fréttunum
frændi síðan við skildum.
Dimmt mér þótti á dögunum
að dóla úteftir götunum.
2.
Varð ég til á veginum
í Vatnahverfismýrunum.
Böðlaðist þó með bössunum
í bólið mitt að lokunum.
3.
Nú er ég með naumindum
nýkominn úr vellinum
berja farinn bægslunum
í brekkunni hjá skipunum.
4.
Stálið vefst í stráunum
að standa á vítisbökkunum
ræ ég því á rassinum
með rauð augun í tóftunum.
5.
Að róla eftir rollunum
rýrð þykir í slættinum
því Imba strauk með ósköpum
andans til í hríðunum.
6.
Bústýran á Bakkanum
býsna köld í svörunum
er að ausa eggjunum
aftur og fram í kofanum.
7.
Telst það eitt með tíðindum
að töglin hverfa úr hestunum
en maðurinn þar á Mýrunum
mjög er kænn í sökunum.
8.
Ósjúkt spyrja allt er um
ytra hér á kjálkanum
þó hitinn sé í heyjunum
þeir hafa traust á vetrinum.
9.
Hætti að flagga flíkunum
flæðarhind í kaupstaðnum
losnaði burt af líftógum
og lúðraði upp að klöppunum.
10.
Af borðagammi bráðfeigum
brimið fleygði magálnum
upp á land með ólögum
en Ægir tók við görnunum.
11.
Dag þann sama digta ég um:
Duggan hérna á Bakkanum
leysti sig frá landtógum
og lóðsaði burt af höfnunum.
12. Eitt er það í annálum
að hún fórst í drápsbylnum
skemmdist hvergi á skervöllum
þó skipið gengi af botninum.
13.
Aftur vík ég orðunum
enn til þín á miðanum
læt ég vaða af leiðindum
ljóða flest í klausunum.
14.
Vertu frændi var um þig
von er eftir slysunum
heima áttu á Höggstöðum
hætt við vígabrandinum.
15.
Ég vil æ og jafnan um
já, á meðan við lifum
unna þér af einlægum
innstu hjartapörtunum.
16.
Þó fari allt að forgörðum
Og fyrnist tryggð í heiminum
hafðu samt í huganum
heimskingjann á Bakkanum.
17.
Þó askan verði að olíum
eitrið sjálft að kræsingum
tárin falli af tinnunum
og taðan spretti á jöklunum.





Athugagreinar

Heimildarmaður Ingi Hans Jónsson á Grundarfirði f. 1955, fékk afrit bréfsins hjá Pétri Jónssyni, húnvetnskum manni sem hann kynntist á Reykjalundi um 1990.