Á Miðgili | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Á Miðgili

Fyrsta ljóðlína:Hljóð ég geng um heilög vé
bls.46
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Hljóð ég geng um heilög vé
héðan lét ég fyrst úr vör.
Ótrúlega auðn þar sé
sem áður ríkti líf og fjör.
2.
Þessi örlög angra mig
hér átti bernsku ljúfan heim.
Alla tíð um ævistig
á ég sjóð frá dögum þeim.
3.
Eltist ég við ær og kýr
önnum kafin líkt og flestir.
Heimilisins hirti dýr
hestarnir þó voru bestir.
4.
Man ég okkar létta leik
lengi býr að kynningunni
við Grána, Fleygi, Fálka og Bleik
fasta vini í minningunni.
5.
Ef þessar grundir gætu nú
gamlar stundir endurvakið
lífleg mundi sagan sú
og syngja undir hófatakið.
6.
Þá var allt svo einfalt mál
allir höfðu nóg að gera.
Æskugleði í ungri sál
og enga þunga sorg að bera.
7.
Öllum börnum óska ég
þau ættu slíkan minjaheim
en leiðist ekki villuveg
sem verður ofraun mörgum þeim.