Vísur úr Aðaldal | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vísur úr Aðaldal

Fyrsta ljóðlína:Ég hef kynnst við kaldan snjó
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Ég hef kafað kaldan snjó
kynnst við marga hrinu.
Ég á ekki af neinu nóg
nema mótlætinu.
2.
Tíminn líður dagur dvín
dregur þrótt úr muna.
Er á förum æskan mín
út í blámóðuna.
3.
Að mér þrengja ótal mein
ekki er af miklu að taka
þó að fljúgi ein og ein
út í bláinn staka.
4.
Hljóður lengi er hugur minn
hörðum þrengist línum.
Hér ég engan hljómgrunn finn
handa strengjum mínum.
5.
Mig hefur löngum lífið þreytt
og látið kólna í geði
En þú hefur veitt mér aðeins eitt
óblandaða gleði.
6.
Vakir í hjarta þögul þrá
þarf hana vart að næra
það er svo margt sem minnir á
manninn hjartakæra.
7.
Hef ég margs að hlakka til
hlýjan sumardaginn
þegar lóu og lindaspil
leikur undir braginn.