Íslensk örnefni | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Íslensk örnefni

Fyrsta ljóðlína:Líti ég á landabréfið
Heimild:Kertaljós.
bls.15
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Líti ég á landabréfið
ljóð er mér í hug.
Hreimfögur hrynjandi
hefur mig á flug.
- Gullfoss og Dettifoss og Dynjandi.
2.
Legg ég við mitt óðnæmt eyra
elfar heyri nið.
Fleygist á flúðum
fljót um klettasnið.
- Markarfljót og Skeiðará og Skjálfandi.
3.
Líta vil ég læki hoppa
létt um fjallatá.
Launfagrar ljúfsvalar
lindir vil ég sjá.
- Varmalækur, Laugaból og Lindarsel.
4.
Skyggnist ég um sker og eyjar
skrautlegt veit þar safn.
Söngvar og sagnir
sindra´ um hvert eitt nafn.
- Skrúður og Drangey og Draumasker.
5.
Fýsa mig um sund og sanda
söngljúfustu nöfn.
Tónþýður tvísöngur
töfrar mig í höfn.
- Álftafjörður, Súgandi og Sólheimar.
6.
Hugur hver sem Ísland elskar
unir best við fjöll.
Frostköld og funheit
fegrar hann þau öll.
- Kötlu og Heklu og Helgafell.
7.
Forynjur og furðuverur
festu víða nöfn.
Öræfin íslensku
eru töfrasöfn
- Trölladyngja, Sprengisandur, Surtshellir.
8.
Ei mun bregðast álfatrúnni
útlæg hyggja mín.
Blikandi blysfarir
bleikur máninn skín.
- Hulduhvammur, Álfaklettur, Kirkjuhvoll.
9.
Yfirgef ég ævintýrin
ógleymanleg þó.
Ungmenni Íslands
yrkja nýjan skóg.
Hallormsstaðir, Þrastaskógur, Þórsmörk.
10.
Veit ég nýir vermireitir
vernda landsins blóm.
Úrsvölust örnefnin
endurminning tóm.
- Svalbarða og Kaldakinn og Kaldbakur.
11.
Líti ég á landabréfið
leiftrar mér í hug.
Ljómandi litir
lyfta mér á flug.
- Rauðisandur, Grænavatn og Gullteigur.
12.
Lokinhamrar, Lómagnúpur
Lón og Dimmufjöll
Svanshóll og Sæból
seiða þau mig öll. -
- Unaðsdalur, Vonarskarð og Skaldsstaðir.
1932