Hugsað til Stephans G. Stephanssonar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Hugsað til Stephans G. Stephanssonar

Fyrsta ljóðlína:Næðir norðan gjóstur
Heimild:Kertaljós.
bls.12
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Næðir norðan gjóstur
nýjan skóg þinn gegnum.
Teinrétt trén á hólnum
titra´ af hrolli megnum:
Drifhvít draumablæja
dáin laufblöð vefur.
- Reitinn út við ána
annast - því þú sefur.
2.
Eigi þú, en aðeins
andans veiki hjúpur.
Þú munt til vor tala
tiginn jafnt og djúpur
meðan íslensk óðsnilld
unað sálum vekur
- meðan orka og eldur
efasemdir hrekur.
3.
Þú munt til vor tala
tápmikill og vitur
þegar önn og angur
um vorn huga situr.
Þín var reynsla þrungin
þessum sömu tárum -
samt var kvæðaknörr þinn
konungsfley á bárum!
4.
Hvar sem önd þín unir
útsýn mun til fjalla.
Heið mun sýn til sólar
sígræn blöð um hjalla.
Andi alls hins fagra
er þú gafst í ljóðum
helgar dvalar heim þinn
hugarfylgjum góðum.
5.
Hvar sem önd þín unir
andrúmsloft mun þrungið
sannleiks ástar eldi -
ekkert lof mun sungið.
aumu yfirskini
andleysis og hroka.
- Aldnar vanans verjur
verða´ um set að þoka.
6.
Hvar sem önd þín unir
ei mun vetur þjaka.
- Vor og sífellt sumar
sífellt hjá þér vaka.
- Ótal þúsund þakkir
þigg - frá vina heimi!
- Andvakan er enduð.
Árroðinn þig geymi!
Des. 31. 1927