Ljóðabréf Kristjáns frá Bugðustöðum | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Ljóðabréf Kristjáns frá Bugðustöðum

Fyrsta ljóðlína:Vos er frá og vinnukák
bls.DDagbjartsson f. 1942
Viðm.ártal:≈ 0
Vos er frá og vinnukák.
- Vísum má ei gleyma -.
Legg ég á minn óðarfák,
út í bláinn sveima.

Þóttist heppinn fák að fá,
fyrst er sleppi mínum.
Framhjá skreppur skarinn á
skálda jeppum sínum.

Útreið teppir aldarfar,
ýms þó kreppa ríki,
fer um hreppa hér og þar
hroða jeppasýki.

Nú er önnur öld en fyr
ekki spönn frá voða
hlaðnir mönnum hépparnir
hér á fönnum troða.

Menn í fítung moka snjó,
- mörg er skrýtin saga -
Smátt úr býtum bera þó,
bæði ýta og draga.

Brátt úr skorðum bifast flest.
- Breytt er orðin saga .-
Liðka þorði léttan hest
landinn forðum daga.

Lét hann viljug hross og hraust
hjarnið mylja breiða.
Skaust í byljum skóflulaust
skafla þiljur heiða.

Tölt við keppir tískuflog.
Tvisvar hreppist skaðinn-
fjöldinn sleppir fáknum og
fær sér jeppa í staðinn.

Inn til dala, út við sjá,
öðru halir gleyma.
Jeppa fala, jeppa þrá,
jeppa talið dreyma.

Andinn skreppur utar þá,
enginn teppist straumur,
öðrum sleppir, innir frá
eigin jeppa draumur.

Roskinn klæðarunn ég sá
reisu mæða stranga,
vorri þræða veröld frá,
veg til hæða ganga.

Hálsa fetar, fjöll og gil,
fjaðrasetu þráði,
labbið hvetur. Loksins til
Lykla - Péturs náði

Hugsar ráð er reyna má
raunir þjáðu manninn
honum bráðast hermdi frá
haginn tjáði þanninn.

Að mér þéppar neyðin ný
nær á hreppinn setur.
Ljótri kreppu er ég í.
Áttu jeppa Pétur?

Ansar Pétur, síst hér sést.
Sækist betur skriðið,
ef ég set þig upp á hest
og þú getur riðið.

Hér er flokkur fáka í ró,
fyllir þokki liðið.
Giktarskrokkur getur þó
gamla Sokka riðið.

----------------------

Svo ég annars segi fátt.
- Syngur grannur strengur.-
Þú við kannast hróðrarhátt
heimamanna drengur.

Hitti ljóðalappinn þig
langt frá móði, trega.
Kysstu fljóðin fyrir mig
fast og bróðurlega.


Athugagreinar

Sent Jóni bróður höfundar þegar hann var við nám í Reykjavík.