Séra Jón á Bægisá | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Séra Jón á Bægisá

Fyrsta ljóðlína:Bjartur er enn um Bægisá
bls.158
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Bjartur er enn um Bægisá
bjarminn af séra Jóni.
Hús voru þröng og þökin lág
það var svo títt á Fróni.
Kynlega dýrð úr kytru sá
klerkurinn heimagróni.
Málið á tungu litríkt lá
listin var gerð að þjóni.
2.
Tungunnar bar hann blóm og stál
blíður þeim helgu dómum.
Alþýðumanns og Eddu sál
ómuðu í sömu hljómum.
Honum var Klopstocks kviða þjál
kveðin með ljúflingsómum.
Fléttaði hann í Miltons mál
mikið af Íslands blómum.
3.
Hvarvetna dró hann efnin að.
Íslandi vann hans máttur.
Selárdalsbarni í brjósti kvað
bárunnar andardráttur.
Fljótshlíðar átti hann blóm og blað
blíður var hennar þáttur.
Öxnadals gamni og griðastað
gefinn var margur háttur.
4.
Blés hann í eld en ekki í kaun
andhverfis margt þó gengi.
Legðist á herðar lífsins raun
lék hann á skæra strengi.
Þáði hann að lokum þjóðskálds laun
þó að um seinan fengi.
Óðurinn fagri upp um Hraun
ómaði vel og lengi.
5.
Drengurinn heima í Hrauni þá
hlustaði sæll og feginn.
Fegurðin sem í ljóði lá
lék um hann öllu megin.
Sproti þess máls er Ísland á
opnaði honum veginn.
Titrandi var í von og þrá
vaknandi strengur sleginn.
6.
Enn skulu slíkar auðnuspár
Íslandi möttul skera.
Enn er í bjarma Bægisár
barni þess gott að vera.
Þar er sinn harm og hjartasár
hlæjandi létt að bera.
Ylhýra málsins mennt og þrár
mannshjartað auðugt gera.