Án heitis | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Án heitis

Fyrsta ljóðlína:Það sé mælt í Þórðar eyra
bls.I bls. 20
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1849
1.
Það sé mælt í Þórðar eyra
þetta skyldi hann gjarnan heyra
og sinna því sem sannleiks raust:
Ef á vegum Gríms hans gengur
getur hann trauðla honum lengur
slamsast áfram slysalaust.
2.
Mjög til haturs, ef hann egnir
alþýðuna, verr það gegnir;
á hún rétt sinn eins og hann.
Hún er ei fyrir hann til orðin
hans þó leggi mat á borðin
með svita og lúa safnaðan.
3.
Hún er lands og stétta styrkur
stórt má kalla heimsku myrkur
ef hún kúguð er og smáð.
Þetta illa þolað getur
þverúð móti röngu setur
ekki stoða önnur ráð.
4.
Höfðingjum sem halla rétti
og hafa marga ljóta bletti
marka skyldi minna svið;
þeir án hlífðar þrátt sig ala
þúsundir og hundruð dala
árlega svelgja í sinn kvið.



Athugagreinar

Höf. var einn foringjanna í Norðurreið Skagfirðinga um miðja nítjándu öld og orti þetta ljóð til Þórðar Jónassen, síðar dómsstjóra, en var settur amtmaður eftir fráfall Gríms Jónssonar. Grímur var amtmaður á Möðruvöllum þegar Skagfirðingar riðu norður en lést litlu síðar.