Hallgrímur Pétursson | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Hallgrímur Pétursson

Fyrsta ljóðlína:Alkunnugt vel ég efni ljóðs
bls.II 335
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Alkunnugt vel ég efni ljóðs
ofan tek ég og bið mér hljóðs
knúður af heitum hjartans yl
Hallgríms í dag ég minnast vil.
2.
Hallgrímur sonur hringjarans
hamraði járnið utanlands.
Brynjólfur Sveinsson sæmd þá hlaut
sveininn að leiða´ á menntabraut.
3.
Próflaus frá námi hverfur hann.
Hernumin kona ást hans vann.
Leiddur af Drottins ljúfu hönd
lendir við móðurjarðar strönd.
4.
Dýrðlegum gæddur andans auð
öðlingur bjó við skort og nauð
til Hvalsnesþinga vígður var
valt honum reyndist lánið þar.
5.
Sárglaður hann að Saurbæ fór
syngur þar andans hetja stór
Passíusálma ljúfust ljóð
lífsafli trúar blæs í þjóð.
6.
Ljóðdöggin hnígur himinskær
- hörpuna þegar skáldið slær
svalandi hjartans heitri þrá
heilræða perlur börnin fá.
7.
Skáldmærings andlit skuggsjá var
skínandi sálar fegurðar
hárið sem næturhúmið svart
harmrúnum letrað ennið bjart.
8.
Holdsveikin mæðu honum bjó
háfleygu kvæðin söng hann þó
trúarlífs æðin opnast best
er honum blæða sárin flest.
9.
Ferstikla, ó, þú fræga kot.
Féll á þig himins geislabrot
upp þegar sveif frá sorg og rýrð
sál hans til Guðs í ljós og dýrð.