Heiðin heillar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra
1.
Þegar halla að hausti fer
heiðin kallar löngum.
Hugurinn allur unir sér
inn til fjalla í göngum.
2.
Þá í Fljótsdrög ferðin lá
fjöllin móti hlógu
stæltum fótum fákar þá
funa úr grjóti slógu.
3.
Harðnar reiðin, frjáls og frí
færist leiðin innar.
Blærinn seiðir okkur í
arma heiðarinnar.O
4.
Og við fögur fjöllin þá
Fljóts í drögum beðið
skemmt með sögum, sopið á
sungin lög og kveðið.
5.
Kvísl var tær í klettaþröng
kliðaði blær í lundi
og við skæran svanasöng
sofnað værum blundi.
6.
Ei mun finnast örðug leið
eftir kynning bjarta.
Vakir minning vonaheið
vermir inn að hjarta.