Undir nótt | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Undir nótt

Fyrsta ljóðlína:Nú skil ég það, sem býr und hafsins hjúp
Þýðandi:Hannes Hafstein
bls.130
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Nú skil ég það, sem býr und hafsins hjúp
og hrannaflóðsins endalausu vegi
því kvíði hjartans kannaði þess djúp
og kynjageiminn mældi hjartans tregi.

2.
Ég stóð í kveld við strönd og hnípinn sá
stormvaktar bárur yst í hafsbrún flýja
og stundarþrótt sinn hver tók hinni frá
hver hrönn sem dó, varð magn í aðra nýja.

3.
Þá glóði hinsti glampi kveldsól frá
glóðheitum roða sveiptist unnar hylur
og roðinn minnti varma varir á
sem voðageimur hafsins frá mér skilur. -

4.
Nú veltur aftur aldan, dimm og gljúp
um endalausa skilnaðarins vegi
og kvíði hjartans kannar hafsins djúp
og kynjageiminn skilur hjartans tregi.