Vorvísur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vorvísur

Fyrsta ljóðlína:Vorið baðar vængjum létt
bls.8
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Vorið baðar vængjum létt
vekur gleði nýja.
Sé ég þýða sérhvern blett
sólargeisla hlýja.
2.
Sólin inn til okkar skein
unaðgeislum stráir.
Þá lifnar von í huga hrein
hlýtt sem vorið þráir.
3.
Vorið blíða, hjartahlýtt
hugans léttir meinum
og alltaf vekur eitthvað nýtt
innst í sálarleynum.
4.
Þýðir lækir þjóta á sprett
þegar af degi lýsir.
Draga anda lífsins létt
ljúfar vorsins dísir.
5.
Margan þjáir kuldi og kíf
í kyljum blaktir skarið.
Oft er mannsins orka og líf
eins og gróðurfarið.
6.
Öllum trega að ýta á bug
æsku léttir sporið.
Sælt er að eiga í sínum hug
sólskinið og vorið.
7.
Einhvern dulinn undramátt
eiga töfravöldin
líkt og hljóðan hörpuslátt
heyri ég bak við tjöldin.