Spunakona | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Spunakona

Fyrsta ljóðlína:Í jarðbrjóstin rennur regnið vægt
bls.1945
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Í jarðbrjóstin rennur regnið vægt,
og rósbörnin sjúga í sig þrótt.
Rökkrið er brumað, og hægt og hægt
úr húmknappnum útsprungin rauðanótt.
Nú smáþagnar rokksins bí-bí og blaka,
þeir blunda sem vaka, þeir þegja sem kvaka
og það gerir hljóðið svo hljótt.
2.
Mín örlaga-nótt! Ég þekki þig!
Og það eftir sextán ár!
Þá var það, hann kom og kvaddi mig:
hann kraup mér að skauti — ég strauk hans hár.
Ævilangt gat ég lagt ást hans í hlekki
ég átti vald, sem ég notaði ekki:
innibyrgð, ógrátin tár.
3.
Hafið þið séð hvernig sælan er lit
þá sáuð þið augun hans.
Heyrt varir gefa’ orðunum vængja þyt,
veikt eða sterkt: Það var röddin hans.
Og líkt eins og hvítbráðið steypustálið,
sem storknar við deigluna’, ef slökkt er bálið,
svo fundust mér faðmlögin hans.
4.
Ég hef elskað mig fríða við andlit hans
ég hef elskað svo loftið varð heitt.
Mitt fótmál var létt, eins og fótmál í dans
mér fannst það allt heilt, sem var áður meitt.
Mér fannst það allt glatt, sem var grátið áður
og gildi heimsins var meira en áður:
Að elska var lífið eitt.
5.
Það ástarlíf varð honum lifandi lind
sem list hans drakk kraft sinn úr.
Og ég sá hann hefja sig tind af tind
sem taminn örn hefði sprengt sitt búr.
Ég hét, að ég skyldi’ ekki hefta’ honum framann:
Við hétum að eiga’ okkar forlög saman
hvort þau yrðu sæt eða súr.
6.
Þá var það einn dag, að hann hermdi það heit:
Ég hefti’ ekki frama sinn.
,,Það eru’ ekki svik við þig„, sagði hann, „ég veit
að sæld mín er lögð undir úrskurð þinn.
En tryggðin við lífstarf mitt heimtar mig héðan,
og hvort annars tryggðir við reynum á meðan.
Og svo skal það sjást hvort ég vinn.„
7.
Ég grét ekki, bað ekki — bara fann
hve brjóst mitt var þröngt um stund.
Og síðan hvern dag ég sat og spann. —
Í svefni bar við, að hann kæmi’ á minn fund.
Nú stendur hann hæst upp á hæð sinnar frægðar,
en hjarta mitt kunni ekki að biðjast vægðar
og berst nú með ólífis und.
8.
Snúrurnar hrökkva: Snældan er full,
og snurðulaust allt sem ég spann.
Þeir kalla það ull, en glóandi gull
úr greip minni rann — það var allt fyrir hann,
sem hóf mitt líf upp í hærra veldi
og hjarta mitt ungrar varði með eldi
sem alla æfina brann.
9.
Ég orka ekki meir, enda þarf ekki það,
á þráðnum er hvergi gróm.
Ef blóðugur er hann á einum stað,
er orsökin sú, að hann spannst inn í góm.
Því þar var hnútur, sem þurfti að renna,
og þá var sem ég fann hold mitt brenna —
og skildi minn skapadóm.
10.
Þú vitjar mín aftur mín örlaganótt
með allan þinn minningafans.
Líð þú væg yfir rósbörnin, væg yfir drótt,
ber þú vísdóm hjartans til konu og manns!
Velkominn nótt! Ég fer nakin í háttinn,
því nú hef ég spunnið sterkasta þáttinn
í hamingju þræðinum hans.