Sálmur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Sálmur

Fyrsta ljóðlína:Ég hníg að altari þínu
Heimild:Drauganet.
bls.20-21
Viðm.ártal:≈ 2000
Ég hníg að altari þínu
hafandi misst minn söng.
Með óhreint í auga mínu
og aumt og myrkt og þröng.

Hjartað mitt tómt og í eyði
ekkert snertir mig.
Og mitt í nauðum mínum
man ég, og heimsæki þig.

Ég finn ekki lagið lengur
allt losnar úr minni greip
líf mitt er hætt að ríma
ljóð mitt yrkir sig sjálft.

Ég veit ekki við hvern ég tala
en gætirðu gefið mér samt
smávegis teip á heimsmyndina
hending´ eða tvær i óreiðuna.

Þetta er allt sem ég á
þetta er allt sem ég get
þú mátt koma og vitja um þessi
drauganet

*
segja það tvisvar
segja það tvisvar
þá rímar allt
þá rímar allt