Útilegumenn | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Útilegumenn

Fyrsta ljóðlína:Litið hef ég Litla-Hraun
Viðm.ártal:≈ 2000
1.
Litið hef ég Litla-Hraun
þar læstir klefar dylja
allslags refa útmæld laun
– eins og gefur skilja.
2.
Æðstu menn í gullingátt
gylltum prýddum fjöðrum
standa gleitt og stefna hátt
– stela mest frá öðrum.
3.
Þessir gista gullin sal
og geta vaxtað arðinn
en lítill þjófur litlu stal
og lenti beint á „garðinn“
4.
En fjármálabrask er fyllirí
sem fáir einir njóta
margra bíða botnlaus dý
er búast við að fljóta.
5.
Margur hefur stundað stút
og stolið drjúgt um jólin
langar svo að leggjast út
– en lítið er um skjólin.
6.
Ódáðahraun er ekki gott
útilegumönnum
þar er hvorki þurrt né vott
– þar er grjót í hrönnum.
7.
Annars staðar gefast grið
gríptu ráð með þökkum.
Farðu beint í friðlandið
fræga á Eyjabökkum.
8.
Göfugustu græningjar
góna á þessar heiðar
og bráðum tekst að banna þar
beit og mannaveiðar.