Systir mín | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Systir mín

Fyrsta ljóðlína:Þá einmana til svefns í sæng ég skunda
Heimild:Haustlitir.
bls.43-44
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Þá einmana til svefns í sæng ég skunda
ég sakna þín.
Ég sakna margra sælla unaðsstunda
– ó, systir mín.
2.
Og þegar ég af værum blundi vakna
mig vantar þig.
Þíns græskulausa gamanhjals ég sakna
að gleðja mig.
3.
Við áttum saman okkar bernskugleði
og æskuþrá
og báðar von, sem önnur ól í geði
við áttum þá.
4.
Við létum okkur sama drauminn dreyma
í dagsins ljós.
Um sama farveg sálir okkar streyma
að sama ós.
5.
Við lifðum saman sorgir, von og kvíða
og sæluhnoss.
– En framhjá glöðu æskuárin líða
sem elfarfoss.
6.
Allt breytir – okkar ævintýraheimur
sést aldrei meir.
– En endurminning okkur heyrir tveimur
sem aldrei deyr.