Þú eilífi | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þú eilífi

Fyrsta ljóðlína:Þú eilífi uppreisnarmaður
Heimild:Blágrýti.
bls.156-157
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Þú eilífi uppreisnarmaður
í ósátt við tímans deyfð.
– Þín orð, þín hugsun og andi
er ekki af neinum leyfð.
En þér er einum að þakka
að þankans förg voru hreyfð.
2.
Frá örófi aldanna varstu
í andstöðu harðstjórans
og varðir gegn ranglæti og ráni
öll réttindi siðaðs manns.
– Og þú hlaust líftjón að launum
og laufbleikan þyrnikrans.
3.
Þú krossfestur varst sem Kristur
á kvalanna nakta tré.
Og steiktur sem Brunó á báli
við böðlanna hróp og spé.
Og myrtur sem Mahatma Gandhi
við musteris helgu vé.
4.
Þú eilífi uppreisnarmaður,
í ósátt við guð og menn,
ert ofsóknum ofurseldur
í ónáð við stjórnvöld tvenn.
– ert útlagi á ættjörð þinni
og afmáður verður senn.
5.
Og þá verður ekkert eftir
sem æskunni gefur þrótt.
Og enginn geisli sem gægist
í gegn um þig alheimsnótt.
– En kringum oss helstorkinn heimur
og harðstjórnartómið ljótt.