Vatnsnesingar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vatnsnesingar

Fyrsta ljóðlína:Áður fyrr í kaupstað komu
Heimild:Blágrýti.
bls.103-105
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Húnvetningar
1.
Áður fyrr í kaupstað komu
karlar skeggprúðir,
– augnafránir, handaheitir,
halir vindgnúðir.
2.
Róður þessir karlar kunnu,
knúðu árarnar
– svo að græðir froðufelldur
flaut um súðirnar.
3.
Orka bjó í augnaleiftrum,
æst og stillt í senn.
– Þetta voru Vatnsnesingar,
vörpulegir menn.
4.
Heimaunnum klæðum klæddir
kvöddu djarflega.
Farm á land á breiðum bökum
báru knálega.
5.
Kaupmenn bæði og búðarþjónar
beittu höndum greitt.
– Mikinn skerf til skipa báru.
Skulduðu engum neitt.
6.
Ægisdjarfir ýttu af sandi,
öldum skeyttu lítt.
Út við sjónhring eygðist síðast
aðeins seglið hvítt.
*
7.
Vatnsneskarlar kátir voru
kring um skálaborð.
– Þegar vandi var á höndum,
vógu sérhvert orð.
8.
Jafnan voru vinum hollir,
veittu gjöldin tvenn.
– En þeir voru þykkjuþungir
þessir gömlu menn.
9.
Þó að brimið skylli á skerjum,
skipum renndu fram.
Í þoku og myrkri kvað á keipum
kröftugt áraglamm.
10.
Fyrir hreysti hlutu að launum
hafsins dýru gjöf.
– Sumir gistu að leiðarlokum
lagardjúpsins gröf.