Skáldið í dalnum – Gísli Ólafsson – | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Skáldið í dalnum – Gísli Ólafsson –

Fyrsta ljóðlína:Sé ég til baka. Silfrar máni tinda
Höfundur:Friðrik Hansen
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Sé ég til baka. Silfrar máni tinda
og svellin gljá við dalabýlin fríð.
Áin í buga bregður sléttum linda
úr bláum ís, sem speglar bratta hlíð.
Fjarlægir, hvítir hnjúkar standa í röðum
hylla nýfætt skáld á Eiríksstöðum.
2.
Sé ég til baka: Sumarhaga fríða
sólfagrar myndir rísa bjarta nótt.
Í friðsælum hvömmum kvikir lækir líða
litfagrar rósir döggvast - allt er hljótt.
Vængbreiðir svanir fljúga fram til heiða.
Fjarlægðir bláar skáld til drauma leiða.
3.
Sé ég til baka - heyri hörpustrengi
hljóma um berjamó í fjallaþröng.
Kveðin er vísa á túni og úti á engi
og ástir dalsins lifna í nýjum söng.
Risfríðir, háir hnjúkar standa í röðum
hylla sextugt skáld á Eiríksstöðum.