Grímsey | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Grímsey

Fyrsta ljóðlína:Strandir munu flestum finnast
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Strandir munu flestum finnast
fremur skapa kjörin hörð.
Grímseyjar þó mætti minnast
mest er prýðir Steingrímsfjörð;
ætla eg þar um aldir hafi
eflaust búið sæmdarmenn;
tel ég frá því tóftir skrafi,
túngarðsbrot og fleira enn.
2.
Fyrir opnu fjarðarsundi
fögur stendur eyjan mín;
sjómaðurinn sakna mundi,
sæjust ekki ljósin þín;
gnægð hún sýnir sumarblóma,
sem er vert að skoða í ró;
fegurð hennar flestir róma
ferðamenn, af landi og sjó.
3.
Hún er meira en augnayndi
eyjan fagra geta má;
ábúandinn ætla eg fyndi
egg og fugl og reka af sjá;
eftir drjúgum aflaföngum
undan skammt, úr grýttri vör,
einyrkinn þar ýtti löngum,
áður fyrri, léttum knör.
4.
Fyrir norðanstormi stríðum,
Strandabyggð er herjar á,
veitir skjól í vetrarhríðum,
vorið lét oss snemma sjá;
hennar mikli gæðagróður
gleður hugann ár og síð,
vetrarlangt er veitti fóður
vænum sauðum fyrr á tíð.
5.
Víst er nokkrum vanda bundið,
vel að hagnýtt þetta sé;
árin líða – upp er fundið,
ala saman refi og fé;
tregt að finna trúa, þjóna,
tapast frelsi, er virðist strangt;
níu synir sömu hjóna
sátu þarna vetrarlangt.
6.
Útlagi með öðrum manni
ungur sveinninn gerðist þar;
fjórtán ára úr föðurranni
falin þunga skyldan var;
þolinmæði og þrekraun stærsta
þörf á vinnu í landi er nóg;
verkum skipta við þann næsta
varð, en æði misjafnt þó.
7.
Hvatt er til að dvelja og duga,
drengir ýta landi frá;
viðkvæmnin má varla buga,
verður mamma á eftir sjá;
veik er stjórn á völtu fleyi,
viðsjál bára á sundi rís;
svo kann fara, að sjái hún eigi
soninn – nema í paradís.
8.
Ungum sveinum afl og dugur
eykst við hverja slíka raun;
styrkist bæði hönd og hugur,
hreystin ein er þeirra laun;
frjálsir æfa byssu að beita,
björg og unað veita sér,
finna margt, er fjörur leita
fremur gjöful ströndin er.
9.
Tíminn líður, tugum ára
tekst að færa margt í lag;
þó á sundum brotni bára,
bæta vélar sjómanns hag;
þar sem feður þungum árum
þreyttu fangbrögð Ægi við,
svífur nú á sollnum bárum
sviphýr skeið um fiskimið.
10.
Enn er háttum breytt til bóta,
burt er vetrarsetan löng;
frjálsir gripir gróðurs njóta,
gjörð er útlæg tófan svöng;
ennþá mun þó eyjan fríða
ýtum láta margt í té;
takast víst, er tímar líða,
tilþrif mörg að ná í fé.
11.
Þú, sem ferð um frónið víða
fræga staði til að sjá,
láttu ekki lengi bíða
að líta eyna fögru á;
hún mun þig um fleira fræða
en frá er skýrt í þessum brag;
vonbrigði þig varla mæða,
veldu fagran júlídag.