Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps

Fyrsta ljóðlína:Þeir gistu í gangnakofa
Heimild:Feykjur.
bls.29
Viðm.ártal:≈ 1925

Skýringar

Með hamingjuóskum og í minningu þeirra manna sem stofnuðu kór inn á heiðum fyrir 70 árum
1.
Þeir gistu í gangnakofa
með gömlum hefðarbrag.
Létta veig þar lofa
er lyftir andans hag,
fara seint að sofa
en syngja fram á dag.
2.
Og löng er sögu leiðin
og leiftrandi í senn,
frá því hýsti heiðin
hrausta gangnamenn
er hófu söngvaseiðinn
sem að hljómar enn.
3.
Þá leitarmenn skal lofa
er leggja á dal og fjöll,
finnst það synd að sofa
sælu dægrin öll,
og gamlan gangnakofa
gera að söngvahöll.