Arnljótur gellini | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Arnljótur gellini

Fyrsta ljóðlína:Lausamjöll á skógi skefur
Heimild:Andvari.
Viðm.ártal:≈ 1025
Flokkur:Söguljóð
1.
Lausamjöll á skógi skefur,
skyggnist tunglið yfir hlíð.
Eru á ferli úlfur og refur,
örn í furutoppi sefur,
nístir kuldi um næturtíð.
2.
Fer í gegnum skóg á skíðum
skörulegur halur einn,
skarlatskyrtli sveiptur síðum,
sára gyrtur þorni fríðum,
geislinn hans er gambanteinn.
3.
Eftir honum úlfar þjóta
ilbleikir með strengdan kvið.
Gríðarstóðið gráa og fljóta
greitt má taka og hart til fóta,
ef að hafa á það við.
4.
Hefur hann á mörkum marga
munntama þeim gefið bráð.
Sjálfs hans ævi er álík varga,
einn sér verður hann að bjarga,
hefur safnað ei né sáð.
5.
Með ráni og vígum raunahnútinn
reið hann sér og auðnutjón.
Á holtum og á heiðum úti
hýsa hann eikarstofn og skúti.
Hvergi er honum fritt um frón.
6.
Ýmsar sögur annarlegar
Amljóts fara lífs um skeið.
En fátækum hann þyrmir þegar
og þeim, sem fara villir vegar,
vísar hann á rétta leið.


Athugagreinar

Arnór Sigurjónsson segir í Andvara 1968:
Eitt er það kvæði Gríms, sem mig hefur mest heillað. Það er kvæði hans um Amljót gellina, skógarmanninn og afreksmanninn. Frá Arnljóti þessum er sagt í Ólafssögu helga í Heimskringlu, fyrst er hann bjargar Þorvaldi Snorrasyni goða á flótta hans úr gíslingu Ólafs konungs Haraldssonar, síðast þegar hann gengur í lið Ólafs og lætur skírast í von um völd í mannabyggð, en í reynd til að falla með konungi á Stiklastöðum. Honum er lýst sem glæsilegri hetju, sem meinleg örlög hafa níðzt á og gert að skógarmanni. í kvæði Gríms er lýsingin ennþá glæsilegri af hetjunni og örlögin dapurlegri en jafnvel í Ólafssögu Snorra.
Svo oft sem ég hafði haft kvæði þetta yfir í huganum, þegar ég var einn á ferð, fann ég lengi ekkert, er tengdi það við líf Gríms eða við samtíð hans, það var mér aðeins skáldsýn gáfaðs manns, tengd og vaxin upp úr gamalli sögu. En á kyrru kvöldi barst mér allt í einu óvænt hugboð: Kvæðið er um Arnljót Olafsson prest á Bægisá. Eg segi ekki frá því sem fullvissu, heldur aðeins hugboði, að þar sé að leita kveiks kvæðisins sem séra Arnljótur er. En því oftar sem hugur minn hefur að því leiðzt, því fleiru hefur upp skotið, sem styður það. Amljótur hafði flest það til að bera, er gerði hann að hetju síns tíma, hann var einhver glæsilegasti gáfumaður, er þjóð okkar átti á öldinni sem leið. Þeir Grímur áttu mörg ár saman í Kaupmannahöfn. Þar var Arnljótur lengi við nám og hagskýrslugerð, öðrum þræði í þjónustu Jóns Sigurðssonar, því að Bókmenntafélagið, sem Jón stýrði, gaf hagskýrslurnar út. Ég hef oft heyrt lítið gert úr íslenzkum hagskýrslum, en það er ranglátt. Sumt af þeim hefur að vísu verið ófullkomið, en sumt er fullkomlega sambærilegt við hið bezta með öðrum þjóðum, einkum að því leyti, hvernig grein er gerð fyrir tölum. Um hagskýrslur þær, er Arnljótur gerði, er tvímælalaust það að segja, að þær eru með snilldarbragði. Auk þess að vera venjulegar hagskýrslur eru þær jafnframt bókmenntir og sagnfræði á háu stigi. Arnór rekur hugrenningar sínar enn frekar í Andvara 1968: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=292736&pageId=4309576&lang=is&q=Arnlj%F3tur%20%D3lafsson