Páll gamli á Holtastöðum | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Páll gamli á Holtastöðum

Fyrsta ljóðlína:Þar fór nú stofn í fljótsins hyl
bls.1940 bls.168-170
Viðm.ártal:≈ 1925
Flokkur:Eftirmæli

Skýringar

Páll Jónsson vegaverkstjóri.
Hann var fæddur 21. nóv. 1853 í Helliskoti í Mosfellssveit, og var fátækra manna. Missti ungur föður sinn, en ólst að mestu upp hjá fóstra sínum, Jóni Halldórssyni. Var á hrakhólum á unglingsárum. Braust um tvítugt í því að fá 40 tíma tilsögn í reikningi og sjómannafræði hjá Markúsi Bjarnasyni, hinum þjóðkunna manni. Það var eina skólaganga Páls um ævina. Varð hún m. a. til þess. að hann barg eitt sinn skipi og mönnum, í ógurlegu vetrarveðri, sem tók út skipstjórann og fleiri menn. Sakir meðfæddrar   MEIRA ↲
I
Þar fór nú stofn í fljótsins hyl
og fleyttist út í sæ,
sem fáir kvistir fundust í
og fellur ekki á glæ,
en traustan stólpa úr trénu því,
þeir telgja á himnabæ.

Hann næddi í æsku norðri mót
og náði lítt í sól,
en svo var rótin hraust og heil,
að hvergi limið kól,
og alla daga þunga þrá
til þroska hann með sér ól.

Sem dauða þyrstur drakk hann allt,
er duga vexti má,
því upp úr kreppu kjarrsins hann
sér kaus sem fyrst að ná,
og seinast toppi lyfti hann Iangt
í loftin heið og blá.

II
Svo hljótt fór Páll í helga mold
sem hrykki brunnið skar,
hann gleymdur líkt og gamalt djásn
í grasi nýju var,
en aðalsmerki innra manns
hann allt til dauða bar.

Með öðrum sjaldan átti leið,
því altaf fór hann beint,
til hægri og vinstri horfði lítt
og hræddist ekkert leynt.
Hann aldrei skyldu skaut á frest
og skapið var svo hreint.

Ég vissi engan elska rétt
í öllu jafnt og hann,
og aldrei síður annar neinn
af ást til launa vann,
en löngun til að létta þraut
sem logi í hjarta brann.

Hans fjölmörg góðverk falla senn
í fyrnsku og gleymsku haf,
ég læt mér nægja að nefna eitt,
að níu ár hann gaf
til bús með ekkju og börnum, svo
þau bjargast gætu af.

III
Sem ferjukarl og fjósamann
hann fyrst ég kynntist við,
en hann tók fanginn huga minn,
því hann bar annað snið
en flestir þeir, sem alast upp
í okkar nýja sið.

Hin forna elja enn var söm
og enn var dygðin lík,
og göfugmennskan glitraði enn
í gegnum bætta flík,
og enn var örmild höndin hans
og hugsun kærleiksrík.

Og hugur enn til hæða flaug
og hæst á næturstund,
hans gleði var við geimsins rök
að glíma á marga lund,
og allt til hinsta andartaks
hann aldrei gróf sitt pund.

IV
Ég man hann bezt í kirkjukór,
hans kærsta iðja var,
að hringja klukku á helgum stað
og hlusta á orðið þar.
En ég og aðrir vissu vel,
hvers vitni hann sjálfur bar.

Ef til er kristin karlmannslund,
var kristin lundin hans,
því rétti og fórnum vígður var
æ vilji þessa manns.
Í orði og verki augljóst
sást hans ást til meistarans.

V
Í Holtastaða helgum reit
nú hvílist lúin hönd,
með feginleik í fegri heim
er flogin Ijóskær önd.
Ég held að klukkur hafi hringt,
er hann kom þar að strönd.

Eg einskis get um englaheim
og öll hans leyndarmál,
en eitt er víst: Þá fagnar fá
þar frelsi hólpin sál,
ef ekki hefir Kristur kysst
og krýnt hann gamla Pál.