Vesturförin | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vesturförin

Fyrsta ljóðlína:Er sumarvindur um sveitir blés
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1965

Skýringar

Heimild: Tíminn 23.mars 1965 (68.tbl.)
Er sumarvindur um sveitir blés
og síldin var austan við Langanes,
í ferðalög bjuggu sig fyrirmenn,
þeir flugu‘ upp í loftið og hurfu senn.
Síðan hann Bjarni okkar Benediktsson
birtist á hlaðinu í Wasington,
til að hitta þar húsbóndann,
háæruverðugan tignarmann.

Í bæjarsundi fann Bjarni prik
og barði á dyr eftir nokkurt hik.
Svo hörfaði ´ann örlítið aftur á bak,
inni var hundgá og fótatak.
Þá hreyfðist klinkan og hurðin féll inn
en hundaþvaga og forsetinn
barst út á hlaðið með háum klið.
Þá heilsað Bjarni: „Sæl verið þið“

„Sæll vertu ráðherra úr Reykjavík.
Þú ert röskur að ferðast, -svei þér tík.
Um þúsund rastir þú komst til mín,
-þegiðu Sámur og skammastu þín.
Þið ferðist og sitið á fundunum,
-fjárans læti eru í hundunum.
En þó þeir urri og ygli sig,
ég ætla að þeir muni ekki bíta þig.

Íslenski ráðherra, okkur hér,
er ánægja mikil að kynnast þér
og mikils vert er um vinskap þinn,
Það er verst að ég get ekki boðið þér inn,
í kaffisopa, því konan fór
í kaupstaðaferð og bæjaslór.
Svo þunn verður koman í þetta sinn“
„Já, það gerir ekkert til Johnson minn

Ég skrapp hingað í skemmtiferð
á skýjafáki af bestu gerð
Því veðrið er ágætt frá degi til dags
og dáindis hentugt til ferðalags.
Til Finnlands í gær hann Guðmundur fló
og Gylfi er austur í Tokyo.
Svo telja má að það gangi glatt,
En Gunnar er heima að rukka inn skatt.




Athugagreinar

Sumarið 1964, þegar „Viðreisnarstjórnin“ var við völd, flaug Bjarni Benediktsson
forsætisráðherra til Bandaríkjanna á fund Lyndons B. Johnsons forseta. Johnson tók Bjarna í
hundagarði sínum. Í frétt Morgunblaðsins 19.ágúst 1964 sagði m.a. „voru þar komnir hundar
forsetans, sem eru systkin.“
Aðrir þeir ráðherrar Viðreisnarstjórnarinnar, sem nefndir eru í bragnum eru: Guðmundur Í
Guðmundsson utanríkisráðherra, Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra, sem á sama tíma
var viðstaddur setningu Olympíuleikana í Japan og Gunnar Thoroddsen fjármálaráðherra.