Á Vatnsnesfjalli | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra
Hér af bruna hvassra eggja
hvert sem litið er
þykir hátt og vítt til veggja,
vittu, hvað þú sér:
Tinda Eyjafjarðar fjalla,
fjölda hnjúka, skörð,
allt frá vegi Vatnahjalla
vestur á Breiðafjörð.
 
Suður heiðar víða vegu
vötn og gróið land,
austar flæmin eyðilegu,
ís og hraun og sand,
Snæfells byggðir mistri máðar
móti Skor og Bæ.
Sjáðu höf á hendur báðar,
hvort með sínum blæ.
 
Húnaflóa Furðustrendur,
firðir, eyjar, sker,
þetta er allt í augsýn, stendur
opið fyrir þér.
Lítum austur, opnast geimur
eins og sjónhverfing,
þetta er engin „annar heimur“,
aðeins Húnaþing.