Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Á leið frá Cambridge til London

Fyrsta ljóðlína:Inn um lestargluggann gægist
Heimild:Spor eftir göngumann bls.179 - 180
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1944
Flokkur:Skáldsþankar

Skýringar

Kvæði ort til súldarinnar á leið með lest frá Cambridge til London í byrjun nóvember 1944.
En svo segir Hjörtur frá „ Í allri ferðinni var skáldaandinn eini félagi minn og huggari. “
Inn um lestargluggann gægist
grátin úfin þokuslefan.
Leiðist henni lífið úti,
langar inn í hlýjan klefann.
Útlagi er hún heima hjá sér,
hundelt, rekin bæ frá bæ.
Tötra hennar tæta og rífa
trjágreinarnar sí og æ.

Það er ekkert yndi að dvelja
utnhúss á þessum slóðum.
Flatneskjan á fjóra vegu
fjöllum svipt og vatnahljóðum.
Svartir akrar, auðir vegir,
enginn félagsskapur nær
utan rammur reykjarmökkur,
rýkur úr strompum nær og fjær.

Gjörla skil ég, skælda þoka,
sköp þín hörð á þyrnivegi.
En enga samúð get ég gefið,
grátur þinn mér bifar eigi.
Fremur mínum huga hægir
að horfa á þinn sorgarleik.
Ég er sjálfur vegavilltur
vafinn mínum eigin reyk.

Á Paddingtonstöð í London keypti ég bollu með einhverju innan í sem stúlkan nefndi nautakjöt, en var líkara skinnpjötlu. “

Fyrrum er ég ungur var á Ísaláði
trúði ég því sem nýju neti
að nautasteik væri úr nautaketi.

En núna er ég lærður eins og lýðir vita,
vitur eins og væri ég Breti
og veit hún er úr hundaketi.

Ég er orðinn vanur hvers kyns voðafæði
og synja engu sorameti
sé það ekki úr mannaketi.

„ Á stöðvarpallinum í Taunton beið ég í klukkutíma í mannkösinni. “

Lestin kemur ekki enn.
Aragrúi fólksins bíður,
blása í kaunin, kikna hnén,
kveljast eins og sjúkir menn.
Stundin líður, stundin dýrmæt líður.

Sérhver haus í sömu átt
suðaustur á öxl er snúinn.
Fýld er grön og fretar hátt,
flestum orðið harla brátt.
Nú er jafnvel sjálfs míns biðlund búin.

Lestin brunar beina leið
með ballardólga hundlúna.
Bráðum þrýtur þetta skeið,
þá komum við til Lundúna.
Þar fæst matur, mjöður, reið.
Mellan kostar pund núna.

„ En London olli vonbrigðum því að göturnar voru kaldar og auðar
og enga svölun af nokkru tagi þar að hafa. “


Þar sem enginn okkur þekkir
Ísland getur neinn ei dæmt,
en ættardrambið okkur blekkir,
er við höfum glösin tæmt.
Bjórinn okkar dómgreind drekkir,
deplar Bretans auga næmt.