Kisa mín | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Kisa mín

Fyrsta ljóðlína:Elsku kæra kisa fín
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1932
Flokkur:Skáldsþankar

Skýringar

Kveðið um kisu.....
Elsku kæra kisa fín
komdu upp í rúm til mín.
Jeg skal strjúka hægt og hljótt
hárið þitt í alla nótt.
Færðu þig undir feldinn
flónið litla á kveldin.

Ekkert vita mamma má
mikið reið hún yrði þá.
Vel því skal ég vernda þig,
vermdu þig nú upp við mig.
Mala skaltu meira
mig langar að heyra.

En hvað þú ert alltaf fín
elskulega kisa mín!
Ekki þarftu að þvo þjer neitt
þó er hárið eins og greitt.
Alltaf þæg og þrifin
þú ert aldrei rifin.

En jeg græt og óþægðast
ef að manna stríkur fast
votri rýju um vanga minn
veð í læknum hvert eitt sinn.
Það er þörf að læra
þrifnað af þjer kæra.

Eg vil breyta eftir þjer
elsku vina kenndu mjer
að hafa alltaf fötin fín
forðast lækinn kisa mín.
Aldrei mun hún mamma
mig þá oftar skamma.

Síðan skal jeg signa þig
svona elskan kysstu mig.
Gefi þjer nú góða nótt
góða reyndu að sofna fljótt.
Guð mun okkur geyma
gott er að sofa heima.