Sumarkveðja | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Sumarkveðja

Fyrsta ljóðlína:Lækkar sól og senn er horfið burt
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1983
Flokkur:Tíðavísur

Skýringar

Ort í október 1983
Lækkar sól og senn er horfið burt,
eitt sumar enn í tímans mikla haf.
Það vakti upp til lífsins kalinn kvist
og kalda rót er undir snjónum svaf.

En hver ein rós sem ávöxtur þess er,
er aftur hrifin burt í dauðans straum.
Er andblær vetrar yfir landið fer
hún á sér ekki lengur vaxtadraum.

Úti í garði fjúka fölnuð lauf,
með frosnar rætur stendur nakin björk.
Og innan skamms mun hylja bliknuð blöð,
við brjóst þín jörð, hin hvíta eyðimörk.

En aftur birtir sumar sunnan fer,
sérhver hugur fyllist þökk og bæn.
Upp úr moldu vex hin rauða rós,
rætur þiðna, björkin verður græn.

Það eyðir kvíða eykur þrek og þrótt,
er þyngir að og veður gerast hörð.
Sú von að lifa ennþá sumar eitt
með allri þinni fegurð móðir jörð.