Til samstarfsfólks hjá ÚKE Dalvík á þorrablóti | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Til samstarfsfólks hjá ÚKE Dalvík á þorrablóti

Fyrsta ljóðlína:Hugur minn leitar á gamlar slóðir
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1977
Flokkur:Hátíðaljóð

Skýringar

Ort til samstarfsfólks hjá ÚKE Dalvík á þorrablóti 19. febrúar 1977.
Hugur minn leitar heim á gamlar slóðir
hljóður ég geymi minninganna fjöld.
Kvöldsins í húmi kulna aringlóðir
hverfa fer máninn bak við skýjatjöld.

Rennur um hugann andblær unaðsstunda
sem áður ég naut á þessum fagra stað.
Sólríku vor með gróður grænna lunda,
góðvildar naut, en hafði ei verðskuldað.

Öllum þeim mörgu er deildu dagsins verki
með dugnaði og gleði, veittu mér oft lið.
Hljóta þið skuluð heiðurs æðstu merki
er héðan við hverfum inn á næsta svið.

Aldrei ég gleymi handtökunum hlýju
er hjá ykkur naut ég, þegar sorg mig skar.
Guðs megi blessun gefa á ári nýju,
gleði og hagsæld, njótið framtíðar.

Megi sú byggð, er okkur hefur alið,
almætti Drottins veiti ykkur lið.
Störfin sem ykkur fengin verða og falin
farsældar njótið hvar sem búið þið.

Indæla sveit með grósku og góða þegna,
gifta og velferð aldrei hverfi frá.
Vetrarins hörkur mega aldrei megna
meinsemdin nokkur undirtökum ná.

Svarfdælska byggð þú andann göfgað getur,
gæfa þín vaxi, dafni lán og trú.
Samstarf og einhug efla skulið betur
ungir og gamlir standið saman nú.

Lífið er stutt, það má ei missa tíma
markið skal vera samvinna og traust.
Vendu þig á við gátur lífsins glíma
það gefur þér tækifærin endalaust.

Við erum reköld í lífsins tíma tröðum
tengjum og glæðum minninganna fans.
Saman við komum hér með huga glöðum,
heilsumst og kveðjumst, já bjóðum upp í dans.

Þannig er lífið ofið hjartans hlýju
hugsjónir fæðast oft við dagleg störf.
Samstillt við mættum svo á ári nýju
sælunnar njóta, það er flestra þörf.

Borðin þau svigna undan matarmagni
miskunnarlaust því troða skal í kvið.
Mætti sá skammtur koma að góðu gagni,
guðanna veigar sjá um framhaldið.

Heill ykkur starfsfólk, farsæld fylgja megi
framtíðin seiðir hugans angur dvín.
Í leikjum og dansi uns lýsa fer af degi
þið lifir í glaðværð, stóru krúttin mín.

Þið eruð svo góð þótt ekkert hafið snuðið
allt virðist lífið fagurt, blítt og slétt.
Þá helgin er liðin hefst upp sama puðið.
Hæ börnin góð, þá er blótið sett.