Kvæðasafn Borgfirðinga

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Knarrarnes

Fyrsta ljóðlína:Á vorin, þegar vindblær enginn
Viðm.ártal:≈ 1900–1925
Flokkur:Náttúruljóð
Á vorin, þegar vindblær enginn
vekur þungan straumanið,
síðla fögur sól er gengin,
sveipast þoku fjallarið,
byrst ei heyrist bárustuna,
blundar allt í friði rótt,
þá er ljúft hjá þér að una
um þögla, kyrra sumarnótt.

Þig er sælt að sjá og skoða
sumardegi björtum á,
glitrað sólar gullnum roða
glóir allt um hæð og lá.
Blómin dafna í brekku og lautum,
brosir gjörvöll náttúran.
Fuglar kvaka, firrtir þrautum,
fagna og lofa skaparann.

Þó að vetrarvindar geisi
og visinn nísti freðinn svörð,
háar jakahrannir reisi,
hylji snævi strönd og börð,
þinn er svipur mér svo mætur
merka, fagra eyjan kunn,
þó að reiðar ránardætur
raskað hafi þínum grunn.

Alloft þínar strendur strýkur
sterkum mundum byrstur sær.
Ógurleg þá aldan rýkur
ekkert hana staðist fær,
við þig hún ótal þreytti glímur
en þína sögu ei margur les
síðan Skalla- gamli -Grímur
gaf þér nafnið Knarrarnes.

Heitt ég ann þér eyjan fríða,
æskudaga minna skjól,
hvort sem blómin brjóst þín prýða
og broshýr vermir náðarsól,
eða frostið föla, lúða,
fönnum búna herpir kinn
finnst mér, aldna eyjan prúða,
yndislegur svipur þinn.