Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Flokkar

Allt  (71)
Ljóðabréf  (1)
Tregaljóð  (1)

Gamankvæði um frambjóðendur í Árnessýslu 1923

Fyrsta ljóðlína:Nú heyanna hvíldin er fengin
Viðm.ártal:≈ 1925

Skýringar

Frambjóðendur við alþingiskosningar í Árnessýslu 27.okt.1923 voru í þeirri röð sem þeir koma fyrir í kvæðinu: Þorleifur Guðmundsson bóndi í Þorlákshöfn, Magnús Torfason sýslumaður á Eyrarbakka, Gísli Skúlason prestur á Stóra-Hrauni við Eyrarbakka, Sigurður Sigurðsson frá Langholti búnaðarráðunautur í Reykjavík, Ingimar Jónsson prestur á Mosfelli, Jörundur Brynjólfsson bóndi í Skálholti og Páll Stefánsson bóndi á Ásólfsstöðum.
Nú heyanna hvíldin er fengin
og haustið situr við völd
en önnur í garð er gengin
er grípur um strengina öld.
Nú stjórnmálin hugina hefja
frá hversdagsönnum og reyk
þó hver annann vilji þeir vefja
við verðum að fylgja þeim leik.

Á þingstaðinn hópar nú halda
því hér verður ótal margt sagt
sem þarft sé fyrir óborna og aldna
og ef til vill höggvið og lagt.
Og forvitnin vaknar af vonum
og við skulum líta þar inn
að heyra hvað svellalands sonum
nú segist um þingvilja sinn.

Hann Þorleifur þéttur á velli
stóð þarna og brýndi nú raust,
„já, leitt er að laxinn mig felli
sem leynt átti að vera mitt traust
og þegar ég þings er á bekknum
er þrautseig mín persóna og slyng.
Þið kaupið ei köttinn í sekknum
ef kjósið mig næsta á þing.„

Hann Magnús var þarna með veldi
og vildi til þingferðalags.
Hann sagði ekki komið að kveldi
né kyrrð síns stjórnmáladags
og allar ég þarfirnar þekki
í þinginu reynst hef ég trúr
fyrst Ísfirðir vildu mig ekki
ég ykkur skal verða sem múr.

Þar Gísli var forkunnarfríður
með fagnaðarerindi nýtt.
Hann drottins er dásemdarsmíði
og dæmalaust talar hann blítt.
„Ég tryggja vil konur og karla
og kaupa frá örbirgð og neyð
og hinum ef hlotnast að falla
ég hlaupa vil þingmannaleið.„

Hann Sigurður gamli okkar góði
nú gjörist í sæti ókyrr
og óskaði hátt og í hljóði
að hann yrði kosinn sem fyrr
Ég vitna ei né votta það glaður
hvar verð ég í pólitík næst
en ég er ei Jónasarmaður
og ég ætla að standa honum fjærst.

Hann Ingimar gæfan oss gefi
að geti hann komist hér að.
„Ég messað á Mosfellli hefi
og mikið ég vandað hef það
og bolsvikka óttast þarf ekki,
þeir eiga ekki ræturnar hér
og þjóðmálin fullvel ég þekki
í þinginu ég kunnugur er.„

Hann Jörundur bauðst fram að bera
fyr brjósti hvað nytsamt er var.
En ónot hann setti í séra
og Sigurð er meinlaus stóð þar.
„Og Framsókn ég fylgi eins og gengur
og fyrst um sinn verð ég þar kyrr
og vonandi verð ég þar lengur
við völdin en nafni minn fyrr.„

En Pál vorn hann vantaði einan
og varð ekki séður um kring
af því hann sá það um seinan
hvað sjálfsagður væri hann á þing.
„En við erum ei allir vinir
og vissum til höfuðs mig set
ég verð ekki verri en hinir
og vanda mig eins og ég get.„

Ég segi ekki sögur af fleirum
er sást og heyrðist þann dag,
þó allmargt vor legði í eyru
sem eins mætti færa í brag.
Og gæfan oss gefi þá alla
með glóandi framfarabál,
við fengjum þá fyrirtaks kalla
að flytja á þingi vort mál.