Á ríkisstjórnarári Rigningar 1945 | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Á ríkisstjórnarári Rigningar 1945

Fyrsta ljóðlína:Hér stjórnar ein stórvitur drottning
Viðm.ártal:≈ 1950
Hér stjórnar ein stórvitur drottning
og stef skulu um hana efnd.
Hún ræður og ríkir hér alein
og Rigning er drottingin nefnd.

En um hennar ágæti og dugnað
er ýmislegt skrafað og sagt
og fáir í sorg hefðu setið
þó sín hefði völd niður lagt.

Um vegi er ófært með öllu
og úti er heytugga mörg.
Þeir segja að hún muni svifta
sveitamennina björg.

Einnig með ambáttir sínar
arkaði niður til vor.
Þær eru þriflegar báðar.
Þær heita Leðja og For.

En synirnir Suddi og Úði
þeir sígráir fara um heim
og heldur finnst mér nú hlálegt
að hafa ekki ljós fyrir þeim.

Og dóttirin, það er hún Þoka
þunglynd og kurfsleg að grá.
Ef væri hún ekki að völdum,
þá væri nú meira að sjá.

Ég vona að hyskið það velti
af valdanna dýrðlega stól.
Að verði bráðlega bylting
og brátt fái völdin hún Sól.